Laufið
Mestu regnskógaríki heims í bandalag gegn skógeyðingu
Updated: Nov 25, 2022
„Stjórnvöld í þremur ríkjum í þremur heimsálfum; Brasilíu, Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó og Indónesíu, hafa myndað bandalag sem miðar að því að verja regnskóga heimsins fyrir frekari eyðingu. Rétt rúmlega helmingur allra regnskóga heimsins, eða 52 prósent, eru í þessum þremur löndum, segir í frétt Reuters um hið nýja regnskógabandalag. Leiðtogar ríkjanna fara fram á fjárstuðning alþjóðasamfélagsins til að draga úr skógeyðingu og viðhalda þessum mikilvægu lífkerfum, öllum Jarðarbúum til heilla.
Þá er ætlunin að þróa „nýtt, sjálfbært fjármögnunarkerfi“ til að hjálpa þróunarríkjum heims til að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika innan sinna landamæra, og vinna að því að auka fjárhagslegan stuðning Sameinuðu þjóðanna við aðgerðir til að draga úr skógeyðingu.
„Við búum við sömu vandamál, og líka sömu möguleika á að verða hluti af lausninni á loftslagsvandanum,“ hefur Reuters eftir Eve Bazaibe, utanríkisráðherra Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó, um ríkin þrjú í regnskógabandalaginu.
Skógeyðing hefur aukist í Amason síðustu ár
Skógeyðing í Amasonregnskóginum brasilíska hefur aukist til muna í valdatíð Jair Bolsonaro, Brasilíuforseta. Væntanlegur arftaki hans, Luiz Inacio Lula da Silva, sem tekur við forsetaembættinu 1. janúar næstkomandi, hét því í kosningabaráttunni að stöðva skógeyðingu í landinu með öllu.
Hann hefur áður talað um að hann vildi gjarnan mynda bandalag með hinum stóru regnskógarríkjunum tveimur til að þrýsta á ríkari þjóðir heims um aðstoð við að vernda skógana.
Bolsonaro hvorki á COP27 né G20
Greint var frá því fyrir nokkru að Bolsonaro myndi ekki sækja loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Egyptalandi, COP27, sem nú stendur sem hæst. Í gær var svo tilkynnt að hann myndi heldur ekki sækja leiðtogafund G20-ríkjanna á Balí í Indónesíu. Engar skýringar hafa verið gefnar á fjarveru hans þar, en forsetinn hefur haldið sig nánasat alveg til hlés síðan hann tapaði kosningunum fyrir Lula da Silva í lok október.
Lula þekktist hins vegar boð Egyptalandsforseta um að mæta á COP27 og hyggst nota tækifærið til að ræða við hina ýmsu heimsleiðtoga og bjóðast til að halda loftslagsráðstefnu í Brasilíu í náinni framtíð."
Frétt frá ruv.is