top of page
  • Writer's pictureLaufið

Loftslagsmálin rædd í Sharm El Sheikh

Updated: Nov 25, 2022

Pistill frá Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

 

„Í febrúar næstkomandi gefst Íslendingum færi á beinu flugi til ferðamannabæjarins Sharm El Sheikh við Rauðahafið þar sem mörgum finnst gott að flatmaga. Sharm El Sheikh verður hins vegar í fréttunum næstu daga þar sem hin árlega loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna er rétt handan við hornið. Ráðstefnan stendur frá 6. til 18. nóvember en sama dag hefst heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu í Katar, stutt frá Sharm El Sheikh. Hugsanlega geta einhverjir ráðstefnugesta nýtt ferðina og sparað eldsneyti en gert er ráð fyrir 30 þúsund gestum á ráðstefnuna.


Í fyrra fór ráðstefnan (COP26) fram í Glasgow í Skotlandi, en í ár mun COP27 fara fram í Sharm El-Sheikh í Egyptalandi. Óskilgreindur hópur íslenskra loftslagssérfræðinga og embættismanna er nú að pakka niður en æðstu ráðamenn þjóðarinnar verða fjarverandi. Í fyrra fóru ríflega 50 manns frá Íslandi til Glasgow en færri munu fara til Sharm El-Sheikh. Meðal ráðstefnugesta verður Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, sem hefur sótt loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna allar götur síðan 1999. Næsta ár verður COP28 haldið í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.


Umdeild staðsetning

Staðsetningin er umdeild enda Egyptaland almennt ekki talið til þróaðri ríkja þó það búi að glæstri sögu. Fátækt og spilling er landlæg í Egyptalandi og 40% þjóðarinnar ólæs. Landinu er ýmist stjórnað af herforingjaklíkum eða trúaröfgahópum og lýðræði stendur höllum fæti. Egyptar eiga erfitt með að brauðfæða sig og verða að flytja inn korn til þess og eru reyndar hinir mestu umhverfissóðar í gamalkunnri merkingu þess að sorp og rusl flýtur um allt. Þó ekki í Sharm El Sheikh sem er vinsæll ferðamannastaður með vestrænum lúxushótelum, matsölustöðum og tækifærum til að synda innan um kórala.


Fyrir fundinn var birt ný skýrsla frá Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna sem er svartsýn að venju. Eins og staðan er núna þá mun losun aðildarríkja loftslagssamningsins einungis minnka um tæplega 1% af því sem vænst er fyrir árið 2030. Til að ná markmiði Parísarsamningsins um að takmarka hækkun hitastigsvið 1,5°C verður losunin árið 2030 að minnka um 45%. Um leið hafa tíðindi ársins, svo sem flóð í Pakistan sett umhverfissinna úr jafnvægi þó þeir telji að úrslit kosninga í Brasilíu muni bjarga regnskógunum. Svona er líf umhverfissinnans, ferðalag frá einu taugaáfalli til annars á milli þess sem þeir skammast út í þá sem enn spyrja gagnrýnna spurninga. En loftslagsráðstefnan er þeirra árlega hátíð þó minna verði um fyrirmenni núna.


Gréta mætir ekki

En ráðstefnan í Sharm El Sheikh verður ekki sama diplómataskrautsýningin og í Glasgow í fyrra. Meira að segja sænski umhverfissinninn Gréta Thunberg hefur staðfest að hún muni ekki fara á ráðstefnuna í ár. Gréta er nú orðin 19 ára og hefur frá unga aldri verið harðasti baráttumaðurinn fyrir aðgerðum gegn loftslagskreppunni. En í lok Cop26 í Glasgow lýsti Thunberg því yfir að ráðstefnuna væri „misheppnuð“ og „alheims-grænþvottahátíð“, eitt allsherjar „bla bla bla“ svo vitnað sé orðrétt til hennar. Hún kynnti nýja bók fyrir stuttu en gagnrýndi að ráðstefnan fari fram í Egyptalandi og sagði að þetta væri land sem „brjóti mörg grundvallarmannréttindi“.


Rishi Sunak, nýr forsætisráðherrann Bretlands, hefur valdið miklu uppnámi með því að hundsa ráðstefnuna. Nýlega var greint frá því að Sunak ætlaði að einbeita sér að því að takast á við „alvarlegar efnahagslegar áskoranir“ Bretlands frekar en að fara á ráðstefnuna, en jafnframt var tilkynnt að ríkisstjórnin væri samt „algerlega staðráðin“ í að takast á við loftslagsbreytingar. Um leið var minnt á að Bretar væru á undan mörgum öðrum löndum í loftslagsmálum. hin þekkti umhverfissinni, Karl þriðji Bretakonungur mun heldur ekki mæta.


Búist er við að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, Emmanuel Macron, forseti Frakklands, og Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, mæti, sem og Boris Johnson sem gefur fyrirheit um að það geti orðið stuð í Sharm El Sheikh."

 

Frétt frá mbl.is4 views0 comments
bottom of page