top of page
  • Writer's pictureLaufið

Landtenging gámaskipa sparar 240 tonn af olíu á ári

Höfundur:

Stígur Helgason

 

„Tvö af gámaskipum Eimskips verða framvegis tengd við rafmagn í landi. Ekki þarf lengur að keyra mengandi ljósavélar á meðan. Þetta dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda um 750 tonn á ári. Stórt skref, segir umhverfisráðherra."


„Dettifoss, gámaskip Eimskips, var formlega tengt við rafmagn í Sundahöfn í dag. Með þessu má slökkva á ljósavélum þegar skipið er við bryggju og spara um 240 tonn af olíu á ári og þar með 750 tonn af losun gróðurhúsalofttegunda.

Verkefnið kostar um 350 milljónir og skiptist á Eimskip og hið opinbera. Og þetta er langþráður áfangi – Eimskipsfólk telur að þetta séu fyrstu gámaskipin í Evrópu sem hægt er að stinga í samband við rafmagn.


Stórt skref til að ná losunarmarkmiðum, segir ráðherra

750 tonn hljóma kannski ekki eins og mikið, miðað við þann þrettán hundruð þúsund tonna samdrátt sem Ísland stefnir að fyrir 2030.


„Það er mjög stutt í það,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis og orkumálaráðherra, um borð í Dettifossi í dag. „Og þetta skref sem er stigið hér í dag, það er stórt skref í þeirri vegferð þó að við þurfum að gera mjög mikið til að ná settu marki.“


Skoða skip sem brenna ekki olíu

Skip brenna fjórðungi allrar olíu á Íslandi. Eimskip hefur rafvætt lyftara og fleira og nú er verið að skoða hvort það borgi sig að hanna skip sem sigla ekki fyrir olíu, tvö til að byrja með, sem kæmu þá til notkunar eftir þrjú, fjögur ár.


„Síðan mun þá tíminn leiða í ljós næstu sex, tólf mánuði hvort við förum raunverulega inn í það verkefni eða ekki,“ segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips. „En stóra málið í að raunverulega minnka gróðurhúsalofttegundir í okkar rekstri er að ná virkilegum árangri í rekstri skipanna.“


Margfalt dýrara að tengja skemmtiferðaskipin

Skemmtiferðaskip eru svo sérkapítuli. Til hefur staðið að koma þeim í samband í höfnum og minnka þannig losun um jafnvel tugþúsundir tonna á ári. Reykjavíkurborg er nú að meta kostnaðinn við þetta og niðurstöðu er að vænta í mánuðinum.


„Það hleypur á einhverjum milljörðum þannig að stærðargráðan er margföld miðað við þetta verkefni,“ segir Skúli Helgason, stjórnarformaður Faxaflóahafna og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.


„En reyndar er líka gaman að segja frá því að fyrsta litla skemmtiferðaskipið, það verður landtengt næsta vor, í apríl eða maí, í gömlu höfninni.“

 

Frétt frá ruv.is


1 view0 comments
bottom of page