Laufið
Hvers virði er náttúran?
Updated: Nov 25, 2022
„Hvers virði er náttúran? Og hver ákveður virði hennar og hvernig metum við virðið? Bryndís Marteinsdóttir plöntuvistfræðingur veltir þessu fyrir sér í umhverfispistli í Samfélaginu á Rás 1.
Ómögulegt að verðmeta til fjár
Þegar við metum virði náttúrunnar er oftast horft til þeirra þjónustu sem náttúran veitir okkur og sú þjónusta metin á hagrænan hátt til að fá verðgildi hennar. Þessi þjónusta, kölluð vistkerfisþjónusta, er mjög fjölbreytt og fjölþætt, og miserfitt er að verðmeta hana. Auðvelt er að verðmeta viðarafurðirnar sem skógurinn gefur, fiskin sem við veiðum og megawattstundirnar sem við framleiðum með virkjunum.
Annað er erfiðara að setja krónutölu á, hvernig metum við hreina loftið sem við öndum að okkur, hvernig metum við þá eiginleika gróðurlenda að halda í vatn og hindra flóð og hvernig metum við líffræðilegan líffræðilega fjölbreytni. Reynt hefur verið að verðmeta þessa þætti meðal annars útfrá því hvað myndi kosta okkur ef við hefðum þá ekki, hvað myndi kosta okkur að hreinsa loftið eða setja upp dýrar flóðavarnir.
Sumt virðist svo nánast ómögulegt verðmeta til fjár, hvernig setjum við t.d. verðmiða á upplifun okkar af náttúrinni og við hvað á að miða þegar upplifun fólks er misjöfn?
En þó að erfitt sé að meta sum af þessum náttúrugæðum og ekki hægt að setja beinan verðmiða á þau er ekki þar með sagt að þau séu minna virði. Eru megawattstundirnar einhvers meira virði en hreina loftið eða ánægja mín af því að geta verið út í óraskaðri náttúru?
Við virðumst hinsvegar oft meta náttúruna betur ef við getum augljóslega séð fjárhagslegan ávinning af henni, t.d. hefur ásókn ferðamanna í íslenska náttúru aukið virði hennar í augum margra og aukið viljan til að vernda hana. Að sama skapi, nú þegar kolefnisbinding er orðin að söluvara og komin beinn fjárhagslegur ávinningur af henni hefur áhersla okkar aukist til muna á að vernda og efla þá vistkerfisþjónustu, stundum á kostnað annarar náttúrugæða.
Peningar ráða oft för
En á það að ráða umgengi okkar við náttúruna? Eigum við eingöngu að horfa til að vernda það sem við höfum beinan fjárhagslegan ávinning af?
Nei, það er eitthvað sem við megum ekki láta gerast – því að þjónusta eins og hreint loft og vatn er eitthvað sem við getum ekki lifað án og svo eru önnur gæði sem við viljum síður missa. Mér finnst að minnsta kosti ómetanlegt að komast út í náttúruna til að leika mér. Því miður virðast samt oft beinharðir peningar ráðið ferðinni, og aðrir hagsmunir látnir sitja á hakanum. Við erum alin upp í samfélagi þar sem peningar hafa mjög mikið vægi og því kemur þetta ekki á óvart, ef það er hægt að græða pening á því að nýta náttúruna á einn hátt er ekki ólíklegt að stórir fjárfestar og fyrirtæki, sjái hag sinn í því að gera það, oft óháð því hvaða áhrif það hefur á önnur gæði, sem þau meta þá minna virðis. Þessi aðilar hafa mikla hagsmuni í því að selja okkur þá hugmynd að þeirra nýting á náttúrunni sé sú best, hún sé nauðsynleg og án hennar muni líf okkar verða verra. Minna heyrist um þau náttúruverðmæti sem munu tapast við þessa nýtingu, hverju við fórnum. Sem betur fer höfum við öflug náttúruverndarsamtök sem eru dugleg í að vera talsfólks þess hluta náttúrunnar sem kannski er erfitt að meta í beinhörðum peningum. En þetta er oft erfið barátta enda aðstöðumunurinn oft mikill. Annarsvegar eru oft mjög fjársterkir aðilar sem hafa digra sjóði sem hægt er að nota til að sannfæra okkur um að þeirra sjónarmið sé það rétta og hinsvegar fjárlítil samtök sem oftar en ekki eru að mestu byggð upp af sjálfboðaliðum. Því miður litast umræðan oft af þessum aðstöðumun.
Misnotuð umhverfisstefna
Sem betur fer erum við, almenningur, farin að gera mun ríkari kröfur til þess að náttúruna sé nýtt á skynsaman, sjálfbæran hátt, og hugað sé að fleiri þáttum en bara beinhörðum peningum í ákvörðunartöku. Og þetta hefur skilað sér – bæði í breytinga á lögum og reglum og í breytingum á því hvernig fyrirtæki vinna. En það er að sjálfsögðu alltaf hægt að gera betur. Rammáætlun, áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða sem samþykktar voru á Alþingi 2011, er dæmi um breytingar í rétta átt. Þar er orkuvirkjunarkostum raðað í fýsileikaröð, ekki einungis eftir fjárhagslegri hagkvæmni og megavöttum heldur er einnig eftir því hvaða áhrif virkjanir munu hafa á náttúruna, aðra landnýtingu eins og ferðamennsku og á samfélögin í heild. Þó að deila megi um vægi einstakra þátta og það hvaða hagsmuni eigi að setja í fyrsta sæti, er þetta þó gagnsætt ferli þar sem við sjáum svart á hvítu hvaða hagsmunum og auðlindum við erum að fórna fyrir ákveðnar megawattsstundir.
Í dag eru svo einnig flest fyrirtæki með umhverfisstefnu og leggja mikið upp úr því að kynna sig og sína þjónustu eða vöru sem umhverfisvæna og sjálfbæra. Því það er það sem neytandinn vill, við viljum flest versla við aðila sem hugsa vel um náttúruna. En eitt er að vera með fína stefnu á blaði og annað að framfylgja henni. Grænþvottur kallast það þegar þeirri ímynd er haldið á lofti að eitthvað sé umhverfisvænna en það er í raun t.d. eins og þegar fyrirtæki eru ekki að framfylgja umhverfisstefnu sinni.
Eitt frægasta dæmi um grænþvott er líklega þegar ónefndur bílaframleiðandi svindlaði á mengunarprófum til að geta selt framleiðslu sína umhverfisvænni en hún í raun var. Annað frægt alþjóðlegt dæmi eru t.d. drykkjarframleiðendur sem eyða miklum fjármunum í auglýsingaherferð um nýjar umhverfisvænni plastflöskur sem þeir stefna á að nota, til að neytandinn fái þá upplifun að fyrirtækið sé umhverfisvænt, á meðan að gögnin sýna að þau fyrirtæki eru meðal þeirra aðila sem eru valdir að hvað mestri plastmengun í heiminum. Svo má ekki gleyma, tískurisunum sem reyna að selja okkur sem mest af ódýrum, endingarlitlum flíkum sem hafa gífurlega neikvæð áhrif á umhverfið, á sama tíma og allar auglýsingar frá þeim benda til þess að framleiðsla þeirra sé sjálfbær og umhverfisvæn.
Grænþvottur er því miður algengur, t.d kom fram í nýlegri athugun framkvæmdarstjórnar evrópuráðsins að í 42% tilvika voru „grænar“ staðhæfingar fyrirtækja ýkjur, rangar eða villandi. Grænþvottur á ekki aðeins við um fyrirtæki heldur eru ríki, stofnanir og sveitarfélög ekki undanskilin. Ég skoðaði t.d. umhverfisstefnu míns sveitarfélags og sá þá að þær fullyrðingar og markmið sem þar eru sett fram eru ekki alveg í samræmi við það sem verið er að gera. Er það eitthvað annað en grænþvottur?
En af hverju skiptir þetta máli?
Það að allar upplýsingar um þau áhrif sem vara eða framkvæmdir hafa á náttúruna liggja ekki á borðinu eða séu matreiddar þannig að við sjáum aðeins aðra hlið,gerir okkur erfitt fyrir sem einstakling að taka meðvitaðar ákvarðanir. En sem betur fer eru neytendur farin að vera duglegri í að sniðganga aðila sem gefa misvísandi upplýsingar. Þetta hefur leitt til þess að meiri kröfur eru nú gerðar til fyrirtækja um að sýna fram á tölur og staðreyndir til að sanna grænar yfirlýsingar sínar, ekki bara frá neytendum heldur einnig fjárfestum og stjórnvöldum. En það er ekki nóg fyrir okkur að fá réttar upplýsingar um það hvaða áhrif framleiðsla vara og nýting hefur á náttúruna, við verðum líka að skapa samfélag þar sem að við setjum meira virði á þá þætti náttúrunnar sem erfiðar er að meta í beinhörðum peningum.
Það breytir engu að fá réttar upplýsingar, ef náttúran er einskis virði í okkar huga.
Til þess að þetta náist þurfum við að auka skilning okkar á öllu því sem náttúran gefur okkur og við verðum að fara meta þá þætti að verðleika. Mikið af þeim vandamálum og hamförum sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag er einmitt vegna þess að við höfum ekki verið að verðmeta þess þætti rétt. sem hefur m.a. leitt til ofnýtingar, mengunar og hamfarahlýnunnar. Við þurfum að breyta viðhorfi okkar og setja náttúrunna ofar í verðmætaröðina, til að snúa þessari þróun við og tryggja að við séum ekki að skerða framtíðar lífsgæði okkar, og lífsgæði komandi kynslóða. Og við erum öll hluti af lausninni, - við höfum valdið sem neytendur– við getum valið að breyta neysluvenjum okkar m.a. með því að kaupa minni, versla við fyrirtæki sem hafa góða og gagnsæja umhverfisstefnu og velja umhverfisvænar vörur.
Við höfum einnig valdið sem kjósendur. Við getum þrýsta á ráðafólk okkar að setja náttúruna hærra upp á forgangslistann og að standa við gefin loforð.
En til þess að geta nýtt okkur þetta vald – þurfum við kannski fyrst að byrja á okkur sjálfum og okkar eigin gildismati – og spyrja okkur er ég að meta náttúruna að verðleikum? “
Frétt frá ruv.is