top of page
  • Writer's pictureLaufið

Fylltist sorg yfir hlutskipti jarðarinnar í geimferðinni

Updated: Nov 25, 2022

„Kanadíski leikarinn William Shatner segist aldrei hafa upplifað eins mikla sorg og í geimferðinni sem hann fór í fyrir ári. Að sjá jörðina í köldum geimnum vitandi að mannkynið sé að rústa henni hafi gert ferðina líkari jarðarför en hátíð.

Shatner var einn fjögurra almennra borgara sem ferðuðust út í geim með geimferju Blue Origins í október í fyrra. Fyrirtækið bauð Shatner, sem þá var níræður, í ferðina en hann gerði garðinn ekki síst frægan í hlutverki James T. Kirk, skipstjórans á geimskipinu Enterprise, í Star Trek.

Eftir ferðina var Shatner uppnuminn og grét þegar hann lýsti upplifuninni fyrir Jeff Bezos, eiganda Blue Origins.Nú þegar ár er liðið frá ferðinni hefur Shatner gefist tími til að melta reynsluna enn frekar. Í nýrri bók hans segir hann að hann hafi búist við því að upplifa tengsl allra lifandi hluta og alheimsins sem aldrei fyrr. Þess í stað hann upplifað að fegurðina væri ekki að finna í geimnum heldur niðri á jörðinni. Að yfirgefa hana tímabundið hafi gert taug hans til jarðarinnar enn rammari en áður.

Á meðan samferðarfólk hans hafi opnað kampavínsflöskur hafi honum sjálfur ekki verið fögnuður í huga. Eftir á hafi hann áttað sig á að hann hafi verið að syrgja plánetuna. „Þetta var ein mesta sorg sem ég hef upplifað. Andstæðurnar á milli nístandi kulda geimsins annars vegar og hlýrrar og nærandi jarðarinnar fyrir neðan mig fylltu mig af yfirþyrmandi depurð. Á hverjum degi stöndum við frammi fyrir þeirri vissu að við berum ábyrgð á frekari eyðileggingu jarðar: útrýmingu dýrategunda, gróðurs og dýra, hluta sem tók fimm milljarða ára að þróast, og skyndilega sjáum við þá aldrei aftur vegna afskipta mannkynsins. Það fyllti mig kvíða. Geimferðin mín átti að vera hátíð en í staðinn var hún eins og jarðarför,“ skrifar Shatner í bókina sem tímaritið Variety birtir glefsur úr."

 

Frétt frá visir.is6 views0 comments
bottom of page