top of page
  • Writer's pictureLaufið

Forsætisráðherra flutti ávarp við opnun þings Hringborðs Norðurslóða

Updated: Nov 25, 2022

„Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti í dag ávarp við opnun þings Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle í Hörpu. Í ávarpinu ræddi forsætisráðherra þær gríðarlegu áskoranir sem blasa við á norðurslóðum en fagnaði um leið aukinni þekkingu og samvinnu vísindafólks um málefni svæðisins, ekki síst á sviði grænna lausna.


Forsætisráðherra sagði að norðurslóðir geti orðið nær óþekkjanlegar eftir nokkra áratugi ef ekki verði gripið strax til fullnægjandi aðgerða í loftslagsmálum. Norðurslóðir séu viðkvæmt vistkerfi þar sem hlýnun jarðar af völdum loftslagsbreytinga sé enn hraðari en annars staðar.


Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Ég vil árétta að það sem gerist á norðurslóðum varðar okkur öll, ekki bara þau okkar sem búum hér. Áhrifin eru hnattræn og munu hafa afleiðingar fyrir alla íbúa jarðarinnar. Við þurfum líka að muna eftir fólkinu sem býr hér á norðurslóðum. Framtíð þess er undir þessu viðkvæma vistkerfi og sjálfbærri þróun komin.“


Forsætisráðherra ræddi einnig hið ólögmæta innrásarstríð Rússlands í Úkraínu og skelfilegar afleiðingar þess. Norðurslóðastefna Íslands sé skýr þar sem áhersla sé lögð á frið og sjálfbæra þróun.


Forsætisráðherra átti einnig tvíhliða fundi með Mary Simon, landsstjóra Kanada, Angus Robertson, ráðherra stjórnarskrár-, utanríkis- og menningarmála í Skotlandi, og ræddi einnig við Offord lávarð, aðstoðarráðherra fyrir Skotland í ríkisstjórn Bretlands.


Þá mun forsætisráðherra taka þátt í pallborðsumræðum í málstofu um jafnréttismál á morgun auk þess að flytja ávarp á viðburði þar sem Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar um málefni norðurslóða, sjálfbærrar þróunar og loftslagsmála verður kynnt. Loks mun forsætisráðherra eiga fundi með fulltrúa Minerd-stofnunarinnar sem vinnur að friði og farsæld á norðurslóðum og rektor Harvard Kennedy School.


Þing Hringborðs Norðurslóða í Reykjavík er nú haldið í níunda sinn og er stærsti alþjóðlegi vettvangurinn um málefni norðurslóða"

 

Frétt frá stjornarradid.is7 views0 comments
bottom of page