top of page
  • Writer's pictureLaufið

Fjórði gaslekinn fundinn í Eystrasalti

Updated: Nov 25, 2022

„Sænska strandgæslan uppgötvaði á þriðjudag fjórða lekann úr rússnesku NordStream-gasleiðslunum sem liggja til Norður-Evrópu eftir botni Eystrasalts. Svenska Dagbladet greindi frá þessu í gær. Í frétt blaðsins segir að fjórði lekinn sé frá Nord Stream 2 leiðslunni, mitt á milli lekanna tveggja á Nord Stream 1, en leiðslurnar liggja samhliða.

Rúmlega sex kílómetrar eru á milli lekanna tveggja úr Nord Stream 1. Þessi fjórði leki er annar tveggja sem er í sænskri efnahagslögsögu en hinir tveir eru í danskri lögsögu. Fyrstu lekarnir uppgötvuðust á mánudag og fljótlega vaknaði grunur um að skemmdarverk hafi verið unnin á leiðslunum.


Nær örugglega afleiðing spreninga af mannavöldum

Stjórnvöld í Danmörku og Svíþjóð hafa síðan útilokað að um slys eða bilun geti verið að ræða og segja nær fullvíst að lekarnir séu af mannavöldum og að öllum líkindum afleiðing sprenginga.


Á fréttafundi síðdegis í gær sagði Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, að öflugar sprengihleðslur þurfi til að valda tjóni sem þessu, og deginum ljósara að þetta séu engin strákapör, eins og hún orðaði það.


Sanna Marin: Tilraun til að grafa undan stöðugleika

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, sagðist á fréttafundi í gær hafa rætt gaslekana bæði við sænsk og dönsk stjórnvöld. Hún segir að líta beri á meint skemmdarverk á leiðslunum sem lið í yfirstandandi tilraun til að grafa undan stöðugleika við Eystrasalt og er sammála því mati kollega sinna í Svíþjóð og Danmörku að sprengingarnar hafi verið viljaverk.


Sagðist hún telja allar líkur á að útsendarar erlends ríkis hafi verið að verki, en nefndi þó ekki hvaða ríki það gætu verið.


Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur fordæmt það sem hann segir skemmdarverk á gasleiðslunum og kallar eftir fundi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna vegna þeirra.“

 

Frétt frá ruv.is







8 views0 comments
bottom of page