Laufið
COP27: Samkomulag í höfn um loftslagsbótasjóð
„Náðst hefur samkomulag á loftslagsráðstefnunni COP27 í Egyptalandi um sérstakan loftslagsbótasjóð til handa fátækari ríkjum heims sem illa hafa orðið úti vegna loftslagsbreytinga. Viðræðum var haldið áfram langt fram eftir nóttu til að tryggja ásættanlega niðurstöðu. Fundi lauk um klukkan fjögur að íslenskum tíma.
Afar uppgefnir ráðstefnugestir fögnuðu niðurstöðunni innilega eftir að Sameh Shoukry, sem stýrir ráðstefnunni, sló niður fundahamri sínum og sagði niðurstöðu náð.
Ráðstefnunni átti að ljúka á föstudaginn en mikill styr stóð um þá tillögu Egypta að koma á laggirnar sérstökum bótasjóði. Til stendur að auðugari ríki heims leggi samtals hundrað milljarða bandaríkjadali árlega til sjóðsins til að bæta upp það tjón sem loftslagsváin hefur valdið í fátækari ríkjum heims.
Ríkari lönd, sem mestan þátt eiga í því að skapa vandann, hafa tregðast við af ótta við að þurfa að leggja til fé um ókomnar aldir. Afleiðingar gríðarlegra flóða í Pakistan, Nígeríu og
víðar virðast vera kornið sem fyllti mælinn.
Þótt gestgjöfunum sé nú hrósað fyrir að koma bótasjóðnum á laggirnar þykir til að mynda Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna ekki enn nóg að gert til að komast að rótum vandans - raunhæfum leiðum til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda verulega.
Ráðstefnunni lauk um klukkan fjögur nótt að íslenskum tíma með því að fulltrúar ríkjanna kölluðu eftir frekari notkun endurnýjanlegra orkugjafa og staðfestu fyrri markmið um að halda aftur af frekari hlýnun umfram 1,5 gráður frá því fyrir iðnbyltingu."
Frétt frá ruv.is