top of page
  • Writer's pictureLaufið

Alvarleg staða varðandi framboð á heitu vatni á Íslandi

Updated: Nov 25, 2022

„Al­var­leg staða er kom­in upp í mál­efn­um hita­veita á Íslandi. Áætlaðir topp­ar í heita­vatns­notk­un gætu náð há­marki vinnslu­getu nýt­ing­ar­svæða og jafn­vel farið yfir þau mörk á næstu árum. Ef það koma lengri kulda­skeið gæti hugs­an­lega þurft að grípa til skerðinga til heim­ila, at­vinnu­lífs eða þjón­ustu. Þetta er grafal­var­legt mál og ekki er útséð hvernig það verður leyst. Þetta kom fram í máli Alm­ars Bar­ja, fagsviðsstjóra Samorku, á opn­um fundi sam­tak­anna um mál­efni hita­veitna, stöðu jarðhita­auðlind­ar­inn­ar og forðamála sem fór fram í Hörpu í morg­un.


Á fund­in­um ræddu m.a. full­trú­ar þriggja hita­veitna um stöðuna eins og hún blas­ir við í dag, þau Hera Gríms­dótt­ir, fram­kvæmda­stýra Rann­sókna og þró­un­ar hjá OR, Sig­urður Þór Har­alds­son, veit­u­stjóri Sel­fossveitna, og Hjalti Steinn Gunn­ars­son, fag­stjóri hita­veitu Norður­orku.


Notk­un auk­ist um­fram fjölg­un íbúa

Um 60% af allri orku sem notuð er hér­lend­is er heitt vatn til hús­hit­un­ar og annarr­ar neyslu. Það er tvö­falt meiri orka en fram­leidd er af raf­magni. Notk­un á heitu vatni hef­ur auk­ist milli ára um­fram fjölg­un íbúa í land­inu og þrátt fyr­ir ýms­ar fram­far­ir sem ætlað var að að draga úr notk­un­inni.

Ljóst er að heitt vatn á Íslandi er ekki ótak­mörkuð auðlind og er stærsta vanda­mál hita­veitna í dag að viðhalda fram­boði í takt við vöxt sam­fé­lags­ins.


Full­trú­arn­ir þrír sem tóku til máls á fund­in­um voru á sama máli um nauðsyn þess að fræða Íslend­inga í þeim til­gangi að auka ork­u­nýtni. Snjall­mæl­ar hafa gefið góða raun en með þeim geta íbú­ar fylgst með notk­un sinni mánaðarlega í stað þess að fá ár­leg­an reikn­ing. Inn­leiða þarf slíka tækni á fleiri svæði.

Þá voru full­trú­arn­ir einnig sam­mála um nauðsyn þess að bora þyrfti á fleiri svæðum. Það ferli væri þó afar kostnaðarsamt og get­ur þar að auki tekið mörg ár að afla leyfa, rann­saka, leggja niður lagn­ir og koma bor­hol­um í notk­un, ef það kem­ur þá heitt vatn úr þeim – sem er ekki gefið þrátt fyr­ir að rann­sókn­ir lofi góðu.


Sund­laug­ar gætu lokað tíma­bundið

Veðurfar hef­ur gríðar­mik­il áhrif á eft­ir­spurn en harðir vet­ur með löng­um kulda­skeiðum gætu leitt til þess að Veit­ur þurfi að bregðast við með því að loka sund­laug­um eða skerða til stór­not­enda, að sögn Heru Gríms­dótt­ur.

Hún seg­ir frek­ari varma­vinnslu og bætta nýt­ingu nauðsyn­lega til að mæta eft­ir­spurn næstu ára, ann­ars eigi Íslend­ing­ar í hættu á að þurfa að leita annarra lausna sem ekki eru jafn um­hverf­i­s­væn­ar, til að mæta orkuþörf­inni.

Eins og staðan er í dag er bætt nýt­ing og lág­hita­svæði þó bestu orku­öfl­un­ar­kost­irn­ir.


Íbúum fjölgað um 40%

Í sveit­ar­fé­lag­inu Árborg hef­ur íbú­um fjölgað um 40% frá ár­inu 2014 en á þeim tíma hafa Sel­fossveit­ur borað sjö vinnslu­hol­ur og virkjað sex, þar af tvær á þessu ári. Fjár­fest­ing­ar veit­unn­ar á ár­un­um 2014 til 2021 námu um 2,9 millj­örðum en fjár­fest­ingaráætl­un árs­ins 2022 ger­ir ráð fyrri 1,1 millj­arði og fjár­fest­ingaráætl­un 2023 stefn­ir sömu­leiðis í 1 millj­arð.

Sig­urður Þór Har­alds­son seg­ir nauðsyn­legt að virkja meira til að mæta auk­inni þörf en í dag sé verið að ganga á lág­hita­svæðin. Mik­il­vægt sé að dreifa álag­inu bet­ur. Hann seg­ir gríðarlega stórt og kostnaðarsamt verk framund­an og spyr hvort ekki sé kom­inn tími til að stjórn­völd komi aft­ur að borðinu eins og í ol­íukrepp­unni á átt­unda ára­tug síðustu ald­ar.

Hann seg­ir mjög mikla upp­bygg­ingu framund­an mjög víða og að þörf sé á breyt­ing­um. Það muni að öll­um lík­ind­um leiða til hækk­un­ar á gjald­skrá. Slíkt væri þó hægt að út­færa með þeim hætti að hafa hana tví­skipta, þ.e. að grunn­kyndiþörf væri ódýr­ar en allt um­fram það væri kostnaðarsam­ara. Gæti það hvatt til sparnaðar á orku­notk­un.


Snef­il­magn af sjó komið í kerfið

Hjalti Steinn Gunn­ars­son seg­ir mik­il­vægt að auka rann­sókn­ar­fé til muna en í janú­ar hafi komið í ljós að snef­il­magn af sjó sé komið í helsta jarðhita­kerfi Norður­orku á Hjalteyri svo það kerfi þolir ekki mikið meiri álag til næstu ára. Til skamms tíma verður hægt að ganga harðar að öðrum svæðum en nauðsyn­legt er að virkja ný svæði.

Rann­sókn­ir hafa þó staðið yfir í Eyjaf­irðinum lengi án þess að skila miklu. Enn eru svæði sem lofa góðu og hægt er að rann­saka bet­ur en það er bæði tíma­frekt og kostnaðarsamt.

Hann seg­ir nú mik­il­vægt að fræða íbúa og hvetja til meiri ork­u­nýtni. Heita vatnið sé tak­mörkuð auðlind og íbú­ar þurfi að haga sér í sam­ræmi við það."

 

Frétt frá mbl.is11 views0 comments
bottom of page