

Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna þjóna þeim tilgangi að vera alþjóðleg verkfærakista að sjálfbærri þróun á sviði umhverfis, samfélags og stjórnarhátta. Hvort sem um ræðir ríki, sveitafélag, stofnun, fyrirtæki eða einstaklinga, er mikilvægt að við stefnum öll í átt að sama markmiði; sjálfbærri framtíð í sátt og samlyndi við samfélag og umhverfi. Þess vegna hvetur Laufið viðskiptavini sína til þess að tengja sig við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, og erum við þar engu undanskilin.
Hafa skal í huga að þetta eru fyrstu drög að markmiðasetningu Laufsins í tengslum við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og geta þau því tekið breytingum án nokkurs fyrirvara. Við leggjum áherslu á að markmiðin séu raunsæ og þyngist frekar með hverju ári. Áætlað er að taka þessi markmið til skoðunar og verða uppfærð í nóvember 2022.
Hvað varðar sjálfbærni- og samfélagsstefnu Laufsins, höfum við nú þegar valið okkur heimsmarkmið ásamt undirmarkmiðum sem við viljum vinna að, og sem passa við okkar starfsemi. Þau markmið eru eftirfarandi
Nr. 12- Ábyrg neysla og framleiðsla

12.5 Eigi síðar en árið 2030 hafi forvarnir, minni úrgangur, aukin endurvinnsla og endurnýting dregið verulega úr sóun.
-
Aðgerð: Takmarka almennt sorp sem fellur til í starfstöðvum Laufsins. Í fyrsta lagi munu vera gerðar ráðstafanir til þess að takmarka alla sóun og þann úrgang sem fellur til. Í öðru lagi verður sá úrgangur sem fellur til flokkaður í 9 flokka (bylgjupappi, pappír og pappi, plastumbúðir, málmar, lífrænn úrgangur, skilagjaldskyldar umbúðir, línsöfnun, almennt sorp og gler). Það sorp sem er óflokkanlegt, þ.e. almennt sorp, mun vera viktað og verður markvisst fundnar leiðir til að takmarka það. Stefnum við þá á að minnka umfang almenns sorps um 80%.
12.6 Fyrirtæki, einkum stór og alþjóðleg fyrirtæki, verði hvött til þess að innleiða sjálfbæra þróun í starfsemi sína og veita upplýsingar um sjálfbærni í skýrslum sem gefnar eru út á þeirra vegum.
-
Aðgerð: Markmið Laufsins er að hafa náð til allra fyrirtækja á Íslandi, sama hvort þau séu viðskiptavinir okkar eða ekki, og kynna þeim fyrir þeim leiðum sem þau geta farið í sjálfbærri þróun. Við stefnum á að vera búin að ná þessu markmiði fyrir lok árs 2023.
12.7 Stuðlað verði að sjálfbæru verklagi við opinber innkaup í samræmi við innlenda stefnu og forgangsröðun.
-
Aðgerð: Stefnt verður að því að allar þær vörur keyptar eru inn fyrir starfstöðvar Laufsins séu umhverfisvottaðar. Ef slíkar vörur eru ekki auðfáanlegar, líkt og tölvu- og annar tæknibúnaður, verður unnið að því að velja vænlegasta valkostinn hverju sinni.
12.8 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að fólk um allan heim sé upplýst og meðvitað um sjálfbæra þróun og hvernig það getur lifað í sátt við náttúruna.
-
Aðgerð: Miðla okkar málstað til almennings. Við stefnum á að meirihluti allra Íslendinga verði orðin meðvituð um Laufið og þann mikilvæga málstað sem við stöndum fyrir. Þetta markmið ætlum við að vera búin að ná fyrir lok árs 2023.
Nr. 13- Aðgerðir í loftslagsmálum

13.2 Ráðstafanir vegna loftslagsbreytinga verði að finna í landsáætlunum, stefnumótunum og skipulagi.
-
Aðgerð: Um leið og við munum vinna að því að takmarka allt okkar kolefnisfótspor, þ.m.t. ferðir starfsfólks, orkunotkun, pappírs- og plastnotkun, vatnssnotkun, úrgangslosun o.fl., þá stefnum við á að verða kolefnislaus vinnustaður.
13.3 Menntun verði aukin til að vekja fólk til meðvitundar um hvernig mannauður og stofnanir geta haft áhrif og brugðist við loftslagsbreytingum, þar á meðal með snemmbúnum viðbúnaði og viðvörunum.
-
Aðgerð: Miðla okkar málstað til almennings. Við stefnum á að meirihluti allra Íslendinga verði orðin meðvituð um Laufið og þann mikilvæga málstað sem við stöndum fyrir. Þetta markmið ætlum við að vera búin að ná fyrir lok árs 2023.
Samþykkt: 30. september, 2022